Innlent

Ímynd Íslands skaðist af hvalveiðum

Ímynd landsins er verðmætasta auðlind íslensku þjóðarinnar, segir talsmaður ferðaþjónustunnar og íslensk stjórnvöld eru að taka þá áhættu að stórskaða hana með hvalveiðum. Á heimasíðu Greenpeace hafa 90 þúsund manns heitið því að íhuga alvarlega að sækja Ísland heim ef þjóðin hættir hvalveiðum. Þriðja langreyðurin var skotin við Snæfellsnes í dag.

Ferðþjónustan gagnrýnir að stjórnvöld hafi ekkert kynnt fyrirhugaðar hvalveiðar og undirbúið nauðsynlegar mótvægisaðgerðir til að hindra stórskaða. Miklir hagsmunir séu í húfi og mikil efnahagsleg rök þurfi að vera fyrir því að hefja hvalveiðar.

Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að mikið kynningarstarf þurfi að vinna hjá helstu viðskiptaþjóðum Íslands áður en ákvörðun sem þessi sé tekin. Það starf hafi ekki verið unnið í þetta sinn. Ef svo sé hafi það farið fram hjá samtökunum og almenningi. Erna segir engan þurfa að ímynda sér það að umheimurinn skipti um skóðun þó honum sé bent á heimasíðu sjávarútvegsráðuneytisins.

Erna telur að stjórnvöld séu að taka verulega áhættu á því að skaða hina "sönnu auðlind" þjóðarinnar - ímyndina - sem sér verðmætasta auðlind Íslendinga. Hún skaðist vegna hvalveiða. Erna segir það taka mjög langan tíma að byggja upp ímynd en stuttan tíma að rífa hana niður. Svo sé afar erfitt að byggja hana upp aftur.

Greenpeace talar sömu röddu og íslenska ferðaþjónustan. Samtökin ætla ekki að senda hingað skip og reyna að hindra hvalveiðar með þeim hætti. Þess í stað hafa samtökin farið framá að almenningur skrái á heimasíðu sína fyrirheit um að íhuga alvarlega að heimsækja ísland - ef íslendingar hætta hvalveiðum.

90 þúsund manns hafa skráð sig á heimasíðu Grænfriðunga og heitið því að koma í Íslands ef Íslendingar hætti að veiða hvali. Frá því byrjað var að veiða hvali aftur í atvinnuskyni fyrir viku hafa 20 þúsund manns bætts við á þennan lista.

Hvalveiðar skiluðu þegar mest var um fjórum milljónum Bandaríkjadala, segir Greenpeace og fullyrða að fyrheitin um túrismann skila miklu meiru efnahagslega.

Frode Pleym, talsmaður Greenpeace, segir að samtökin telji að val Íslendinga standi á milli hvalafurða, sem ekki sé hægt að selja á markaði, hvorki á Íslandi né í Japan, og mikillar aukningar á tekjum af ferðamönnum. Það er í gegnum fólk sem vilji ferðast til Íslands ef hvalveiðum verði hætt.

Frode segir um miklar fjárhæðir að ræða, upphæðir sem séu miklu hærri en tekjur af hvalveiðum þegar þær voru mestar. 87 þúsund manns hafi skráð sig á lista yfir þá sem vilji ferðast til Íslands verði hvalveiðum hætt. Þetta séu 100 milljónir bandaríkjadala í tekjur af ferðamönnum og ferðaskrifstofur segi vægt áætlað að minnst 10% þessara farþega komi til landsins. Það geri 10 milljónir bandaríkjadala, eða miklu meira en hvalveiðar hafi nokkru sinni gefið af sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×