Innlent

Reglur um innihald og magn vökva í flugi breytast

MYND/Jón

Flugmálastjórn hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að breyttar reglur um innihald og magn vökva sem farþegar mega hafa með sér í flug taki gildi innan Evrópusambandsins og EFTA-ríkjanna þann 6. nóvember. Reglur sem takmarka stærð handfarangurs sem farþegar mega taka með sér í flug taka gildi 6. maí 2007.

Reglurnar gilda um allt millilandaflug til og frá Íslandi og um öll flug innan Evrópusambandsins og EFTA-ríkjanna. Þær eru sem hér segir:

· Hver eining umbúða sem farþegar hafa með sér í handfarangri mega að hámarki rúma 100 millilítra (1dl) af vökva.

· Umbúðirnar sem hafðar eru meðferðis skulu vera í glærum poka með plastrennilás sem rúmar að hámarki einn (1) lítra.

· Hverjum farþega er heimilt að hafa með sér einn slíkan poka í handfarangri.

· Farþegum ber að afhenda öryggisvörðum pokann við öryggishlið til sérstakrar skimunar.

· Farþegum er skylt að fara úr frökkum, jökkum og öðrum yfirhöfnum og afhenda öryggisvörðum til sérstakrar skimunar ásamt öðrum handfarangri.

· Farþegum er skylt að fjarlægja fartölvur og önnur stærri rafeindatæki úr handfarangri og afhenda öryggisvörðum til sérstakrar skimunar við öryggishlið.

· Stærð hverrar einingar handfarangurs sem farþegar mega bera með sér um borð í flugvél mun takmarkast við hámarks stærð sem er 56cm x 45cm x 25cm, þar með talin eru hjól og handföng sem kunna að vera á farangrinum. Þessi breyting tekur gildi 6. maí 2007.

„Þessar breyttu reglur takmarka það sem farþegum er heimilt að bera með sér í handfarangri inn fyrir öryggishlið. Farþegum verður eftir sem áður heimilt að kaupa vökva í stærri umbuðum en að framan greinir sem seldar eru í verslunum innan öryggissvæðis flugstöðva. Farþegar munu geta kynnt sér nánari reglur þar um á heimasíðum Flugmálastjórnar Íslands, flugvalla og flugrekenda þegar nær dregur," segir í tilkynningu Flugmálastjórnar.

Nánari upplýsingar um framangreindar reglur og leiðbeiningar verður hægt að nálgast á heimasíðu Flugmálastjórnar Íslands (www.flugmalastjorn.is). Þar verður einnig listi yfir þá staði þar sem upplýsingabæklingur liggur frammi um reglurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×