Innlent

Óánægðir með að vera kallaðir "jeppagengi"



Íslenskir starfsmenn friðargæslunnar í Afganistan eru afar óánægðir með tal utanríkisráðherra um að þeir hafi starfað í "jeppagengjum", en ráðherrann vill mýkja ásýnd friðargæslunnar. Íslensk hjúkrunarkona og ljósmóðir eru nú í Afganistan og hefja störf á laugardag. Þær verða ávallt í fylgd vopnaðra fylgdarmanna.

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra vill breyta ásýnd friðargæslunnar og draga eins og kostur er úr því að íslendingar beri vopn og vera hluti af hernaðarkerfi. Íslenskir friðargæsluliðar í Afganistan hafa klæðst herbúningum og borið vopn til sjálfsvarnar. Hluti þeirra hefur verið í eftirlitssveitum á sérbúnum jeppum sem sendir voru frá Íslandi. Nokkrir þeirra hafa í samtali við fréttastofu lýst mikilli óánægju með orðaval utanríkisráðherra þegar hún vísaði til þeirra sem "jeppagengi".

Fannst þeim felast í þessu óvirðing við þeirra störf - en enginn vildi koma fram undir nafni. Ráðherra virðist vilja draga úr þessum broddi og þakkar þeim fyrir vel unnin störf í pistli á heimasíðu sinni í dag. Íslenskur hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir eru nú í Afganistan og munu á laugardag byrja að fræða heimamenn.

Að sögn Önnu Jóhannsdóttur, yfirmann friðargæslunnar munu þær ekki bera vopn. Þær munu þó njóta verndar vopnaðra manna þegar þær fara á milli staða, og munu íslenskir og litháískir friðargæsluliðar sinna því verkefni. Alls eru 14 Íslendingar að störfum í Afganistan. Allir starfa þeir undir merkjum ISAF á vegum Atlantshafsbandalagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×