Innlent

Framkvæmdum á Íslandi og Trínídad og Tóbago mótmælt í Lundúnum

MYND/Gunnar V. Andrésson

Umhverfisverndarsinnar frá Bretlandi, Íslandi og Tríndídad og Tóbago komu saman á Sloane-torgi í Lundúnum í dag til að mótmæla stóriðjuframkvæmdum tengdum álverum í þessum þremur löndum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá náttúruverndarsamtökunum Saving Iceland.

Þátttakendur vildu á táknrænan hátt syrgja það sem þau segja eyðileggingu íslenskrar náttúru, sér í lagi á Káranhnjúkum og í regnskógum og á ströndum á Cedros-skaga á Trínídad og Tóbagó.

Í tilkynningunni segir að álfyrirtækin Alcoa og Alutrint séu ákveðin í því að breyta þessu landsvæðum í griðarstað þungaiðnaðar. Í Lundúnum í dag var landið jarðsungið með táknrænum hætti. Leikið var á fiðlu og fluttar ræður og ljóð. Meðal þeirra sem ávörpuðu samkomuna voru Íslendingar og Trínídadar auk Sue Doughty, sem er fyrrverandi þingmaður á breska þinginu.

Á sama tíma og fólk kom saman á Sloan-torgi var mótmælt á Trínídad og Tóbago og voru mótmælin samtengd í gegnum síma.

Eftir athöfnina í Lundúnum var líkkista borin að sendiráðum ríkjanna tveggja þar sem reynt var að leggja fram undirskriftalistar gegn framkvæmdum á umræddum svæðum.

Fram kemur í tilkynningunni að starfsfólk íslenska sendiráðsins hafi neitað að taka við undirskriftalistanum sem átti að afhenda þeim. Starfsfólk í sendiráði Trínídad og Tóbagó í Lundúnum mun hafa hótað að hringja á lögregluna þegar kona frá Cedros-skaga reynid að afhenda starfsmönnum þar undirskriftalista.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×