Innlent

Karlmaður varð úti við Nesjavallaveg

Rúmlega fertugur karlmaður fannst látinn vestan við Nesjavallarvirkjun í nótt. Talið er að hann hafi orðið úti.

Það var um fimmleytið í gær sem Lögreglan á Selfossi fékk tilkynningu um bíl utan vegar við Nesjavallaveg. Björgunarsveitir voru kallaðar út og eigandinn fannst svo látinn um fimm hundruð metra frá bílnum um miðnætti í nótt. Hann mun hafa farið í bíltúr og virðist hafa keyrt út af og fest bílinn í snjó. Hann var klæddur í úlpu og líklegt þykir að hann hafi ætlað að ganga til byggða en afleitt veður var á þessum slóðum á fimmtudaginn, hvass vindur af suðri og kalsa slydda eða snjókoma. Lögreglan telur að hann hafi hrakist undan veðrinu, snúið við en villst af leið og orðið úti.

Lögreglan á Selfossi óskar eftir upplýsingum um menn sem virðast hafa gert sér leik að því að velta bifreið hins látna um helgina en vísbendingar eru á vettvangi um að það hafi verið gert eftir að veður gekk niður á þessum slóðum, því bíllinn sást í vegkantinum á laugardeginum en á sunnudaginn var búið að velta honum.

Maðurinn sem fannst látinn hét Jóhann Haraldsson, til heimilis að Reyrhaga 18 á Selfossi. Hann var fjörutíu og eins árs, ókvæntur og barnlaus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×