Innlent

Fjármálaeftirlitið höfðar dómsmál

Fjármálaeftirlitið
Fjármálaeftirlitið MYND/Vísir

Stjórn Fjármálaeftirlitsins ætlar að höfða dómsmál til að fá úrskurði kærunefndar hnekkt. Kærunefndin taldi að Fjármálaeftirlitinu hefði verið óheimilt að takmarka rétt ákveðinna stofnfjáreigenda í Sparisjóði Hafnarfjarðar við fimm prósent.

Í ársbyrjun 2006 komst Fjármálaeftirlitið að þeirri niðurstöðu að virkur eignarhlutur hefði myndast í Sparisjóði Hafnafjarðar í andstöðu við lög. Þannig taldi Fjármálaeftirlitið að ákveðnir aðilar hefðu haft samstarf sín á milli um að kaupa upp og stýra sjóðnum. Fjármálaeftirlitið taldi því að þessir aðilar gætu ekki farið með meira en 5% atkvæða og takmarkaði atkvæðisrétt þessara stofnfjáreigenda við fimm prósent.  

Hægt er að skjóta ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins til kærunefndar samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Það gerðu stofnfjáreigendurnir og úrskurðaði kærunefndin í ágúst á þessu ári að ekki hefði verið sannað að þessir aðilar hefðu haft samstarf um kaup og þess vegna hefði Fjármálaeftirlitinu verið óheimilt að takmarka atkvæðisrétt þessara einstaklinga í sjóðnum við 5% hámark.

Fjármálaeftirlitið er ósammála niðurstöðu kærunefndar og hefur ákveðið að fara með málið fyrir dómstóla.

Forstjóri Fjármálaeftirlitsins segir að málið reyni á mikilvæg atriði fyrir íslenskan fjármálamarkað svo sem á hlutverk og getu Fjármálaeftirlitsins til að stuðla að traustri fjármálastarfsemi hér á landi.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×