Innlent

Fjallað um Jón Ásgeir og Björgólfsfeðga í Ekstra Bladet

Danska Ekstra Bladet birtir í dag skjal sem Pálmi Haraldsson undirritar þar sem hann staðfestir að tilfærslur á fjármagni hafi ekki neitt með peningaþvætti að gera. Á þriðja degi umfjöllunar blaðsins er röðin kominað íslenskum athafnamönnum, því blaðið fjallar um Jón Ásgeir Jóhannesson og Björgólfsfeðga í dag.

Á forsíðu Extrablaðsins í dag segir að íslenskur auðmaður sé eltur uppi af glysgjarnri fortíð. Þarna er átt við Jón Ásgeir Jóhannesson sem er sagður eiga það á hættu að lenda í fangelsi því íslensk yfirvöld séu að undirbúa mikla rannsókn á skattamálum hans. Í myndatexta segir að Jón Ásgeir hafi lengi barist gegn sjálfskapaðri ímynd sem síðhærður glaumgosi.

Fjallað er um Bjórgólfsfeðga undir fyrirsögninni „Faðir milljarðamæringsins dæmdur fyrir svindl". Ekstrabladet vísar þar til gjaldþrots Hafskips fyrir mörgum árum og segir Björgólf eldri hafa fengið 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir efnahagsbrot. Á þriðju síðu umfjöllunar Ekstrablaðsins í dag er yfirskriftin sú að Pálmi Haraldsson neiti peningaþvætti.

Blaðið birtir skjal sem NFS hefur fengið aðgang að. Fram kemur í skjalinu að félagið Fengur eigi inni 10 milljónir evra hjá félaginu Orchides. Skjalið er undirritað af Pálma og sérstaklega er tekið fram að færslur á fjármagni sem tilgreindar eru í skjalinu hafi ekki neitt með peningaþvætti að gera.

"Við höfum verið að skoða hvort viðskipti Íslendinganna hafi eitthvað með peningaþvætti að gera. Við höfum fundið skjal í Lúxemborg þar sem Íslendingur sjálfur ítrekar að ekki sé um peningaþvætti að ræða. Að mínu mati er það mjög óvenjulegt að setja svona skjal inn í bókhald fyrirtækis sem hluta af ársskýrslu, það höfum við ekki séð áður," segir Jan Jensen, ristjóri Eksta Bladet.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×