Innlent

Samstaða um Halldór meðal ráðherra

Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, verður næsti framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar. Forsætisráðherrar norrænu ríkjanna sammæltust um þetta á fundi sínum í Kaupmannahöfn í morgun.

Geir H. Haarde forsætisráðherra sat fund með norrænum starfsbræðrum sínum í Kaupmannahöfn í morgun en þar í borg er nú haldið Norðurlandaráðsþing. Þar var ákveðið að Halldór skyldi taka við framkvæmdastjórastarfinu af Svíanum Per Unckel sem hefur gent því frá upphafi árs 2003. Finnar sóttust einnig eftir stöðunni og buðu fram Jan-Erik Enestam umhverfisráðherra. Halldór varð síðan á endanum fyrir valinu en hann er fyrsti Íslendingurinn til að gegna stöðunni.

Geir H. Haarde segir aðspurður um aðdragandann að ekki sé langt síðan Unckel hafi tilkynnt að hann hefði ekki áhuga á að halda áfram í starfinu. Um sé að ræða nokkurra vikna aðdraganda.

Aðspurður hvaða þýðingu það hafi að Íslendingur gegni nú embættinu í fyrsta sinn segir Geir að það sé mjög mikilvægt og jafnframt gott tækifæri til að auka áhuga og þátttöku Íslendinga á ýmsum sviðum hins norræna samstarfs.

Geir segir fulltrúa Finna, Enestam, sem til greina kom í stöðuna, vera mjög hæfan mann en þegar aðeins sé um eina stöðu að ræða komi aðeins einn maður til greina. Á endanum hafi orðið samstaða um Halldór, m.a. vegna þess að Íslendingur hefur aldrei áður gegnt starfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×