Innlent

Verður æðsti embættismaður norræns samstarfs

Sem framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar verður Halldór Ásgrímsson æðsti embættismaður norræns samstarfs. Um þrjátíu samnorrænar stofnanir víðs vegar á Norðurlöndunum munu heyra undir hann auk tuga samstarfsverkefna af ýmsu tagi.

Þegar við heyrum um norrænt samstarf er það oftast í tengslum við Norðurlandaráð sem stofnað var árið 1952. Í Norðurlandaráði sitja þingmenn enda er það samstarfsvettvangur þjóðþinga ríkjanna.

Halldór Ásgrímsson er hins vegar ekki að gerast framkvæmdastjóri yfir Norðurlandaráði heldur Norrænu ráðherranefndinni sem er samstarfsstofnun ríkisstjórna Norðurlanda og var sett á stofn árið 1971.

Norðurlandaráð hefur sérstakan framkvæmdastjóra og um fimmtán manna starfslið á skrifstofu í Kaupmannahöfn en Norræna ráðherranefndin, sem Halldór mun stýra, er mun umfangsmeiri stofnun, með 70 til 80 manna starfslið á skrifstofu sinni í Kaupmannahöfn.

Um Norrænu ráðherranefndina fer jafnframt megnið af þeim fjármunum sem varið er beint til norræns samstarfs úr ríkissjóðum Norðurlandann, í ár nema fjárlög hennar um tíu milljörðum íslenskra króna. Stofnanir og verkefni, sem Halldór er nú settur yfir, nema fleiri tugum.

Þetta eru verkefni eins og norrænu húsin, uppýsingaskrifstofur, lista- og menningarmiðstöðvar og vísinda- og rannsóknamiðstöðvar eins og Norræni genabankann, Norræna eldfjallastöðin og Kjarnfræðistofnun Norðurlanda. Norræni fjárfestingabankinn lendir einnig inni á sviði Halldórs.

Starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar er það viðamikil að almennt er litið svo á að framkvæmdastjóri hennar sé valdamesti embættismaður norræns samstarfs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×