Innlent

Fá bæði ummönnunar- og fæðingarorlofs-greiðslur

MYND/Stefán

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra sagði á þingi í dag að hann hygðist beita sér fyrir lagabreytingu sem tryggði það að foreldrar fatlaðra barna gætu fengið umönnunargreiðslur samtímis greiðslum í fæðingarorlofi. Þetta tilkynnti hann í svari sínu við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttir, þingmanns Samfylkingarinnar, um málið.

Jóhanna spurði ráðherra hvaða rök væru fyrir því að greiða ekki fyrir ummönnun barna samtímis fæðingarorlofsgreiðslum. Spurði hún jafnframt hvort ráðherra hygðist breyta þessu.

Félagsmálaráðherra benti á að munur væri á þessum greiðslum, fæðingarorlofsgreiðslur væru fyrir tekjumissi en umönnunargreiðslur vegna útgjalda í tengslum við veikindi barna. Tillkynnti ráðherra að hann myndi á yfirstandandi þingi leggja fram frumvarp til breytingar á þessu þannig að foreldrar gætu fengið umönnunargreiðslur og fæðingarorlofsgreiðslur samtímis.

Fagnaði Jóhanna Sigurðardóttir þessum orðum ráðherra og sagði þau tímamótayfirlýsingu. Benti hún á að kostnaður ríkisins vegna þessa væri ekki mikill en málið skipti miklu fyrir foreldra langveikra barna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×