Innlent

Óttast glæpaöldu frá Búlgaríu og Rúmeníu

Breska ríkisstjórnin hefur varað við mikilli glæpaöldu þegar Búlgaría og Rúmenía fá aðgang að Evrópusambandinu fyrsta janúar næstkomandi. Lögregluyfirvöld eru í sambandi við ríkisstjórnir landanna tveggja til þess að byggja upp forvarnir. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, segir að grannt sé fylgst með málinu hér á landi.

Bretar ætla að takmarka fjölda þeirra sem fá að koma til landsins, í atvinnuskyni, við 23 þúsund, meðal annars vegna þess að fleiri Pólverjar hafa komið þangað til vinnu en búist hafði verið við. Hinsvegar er óttast að þau takmörk muni ýta undir ólöglegan innflutning og glæpi.

Talsmaður breska innanríkisráðuneytisins vildi ekki tjá sig um málið en sagðist vita að lögregluyfirvöld væru í nánu sambandi við yfirvöld í Búlgaríu og Rúmeníu um hvernig best yrði haldið á málum.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, sagði í samtali við fréttastofuna að sér væri kunnugt um að Evrópusambandið hefði gert strangar kröfur til ríkisstjórna landanna tveggja, og Íslendingar fylgdust vel með allri þróun mála.

Löndin tvö verða hinsvegar ekki sjálfkrafa aðilar að Schengen samkomulaginu og nokkur ár geta liðið áður en til þess kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×