Innlent

LSH setji Stefán aftur í sitt fyrra starf

MYND/Hari

Læknafélag Reykjavíkur hefur sent frá sér ályktun þar sem það beinir þeim tilmælum eindregið til yfirstjórnenda Landspítalans að setja Stefán E. Matthíasson aftur í sitt fyrra starf sem yfirlæknir.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu fyrr á árinu að áminning sem yfirmenn Landspítalans veittu Stefáni og var forsenda brottvikningar hans frá sjúkrahúsinu væri ólögmæt. Bendir læknafélagið á að spítalinn hafi ekki áfrýjað málinu til Hæstaréttar og því í raun komist að sömu niðurstöðu og Héraðsdómur. Hins vegar ætli yfirmenn spítalans ekki að ekki að fallast á endurkomu Stefáns í starf yfirlæknis æðaskurðlækningadeildar og því muni hin ólögmæta brottvikning standa. '

„Þessi ákvörðun yfirstjórnenda LSH vegur að grundvallarréttaröryggi allra starfsmanna spítalans. Þá er hún síst til þess fallin að lægja þá sívaxandi úlfúð og vantraust sem gætir vegna stjórnsýslu þessa fjölmenna vinnustaðar," segir í ályktun Læknafélags Reykjavíkur.

„Það er grundvallarregla í íslensku réttarfari að deili menn um efni eða efndir samninga sé þeim heimilt að leita úrskurðar dómstóla. Önnur regla er sú að eftir að niðurstaða dómstóla er fengin þá er hún virt af öllum hlutaðeigandi aðilum," segir enn fremur í ályktuninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×