Innlent

Lögreglumenn verða ekki vopnaðir

Dómsmálaráðherra telur ekki ástæðu til að auka vopnaburð lögreglumanna þrátt fyrir aukna vopnanotkun í undirheimunum.

Nýleg dæmi eru um að óvopnaðir lögreglumenn hafi þurft að kljást við glæpamenn með skotvopn, riffla og skammbyssur. Þá liggur fyrir tillaga frá starfshópi ríkislögreglustjóra um greiðari aðgang almennra lögreglumanna að skotvopnum. Þetta varð Þórunni Sveinbjarnardóttur, Samfylkingu, tilefni til fyrirspurnar á þingi í dag um hvort til greina kæmi að hverfa frá vopnleysisstefnunni - og varaði við afleiðingunum. Taldi Þórun neinsýnt að ef almenn lögregla vopnaðist myndu glæpamennirnir gera það líka.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, benti á styrkingu sérsveitarinnar. Ávallt væru að minnsta kosti tveir sérsveitarmenn á vakt sem væru með vopn í útkallsbifreið sinni. Engin áform væru um að vopna hina almennu lögreglu. Hann sagði svo að lengi hefði verið hefð fyrir því að lögreglumenn væru óvopnaðir við störf sín og engin áform væru uppi um að breyta útaf þeirri stefnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×