Erlent

Ekki búist við róttækum breytingum á stefnu Bandaríkjanna

Robert Gates, nýr varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Robert Gates, nýr varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. MYND/AP

Þótt Donald Rumsfeld hafi látið af embætti varnarmálaráðherra og Robert Gates, fyrrverandi yfirmaður leyniþjónustunnar CIA, komið í stað hans er ekki búist við róttækum breytingum á stefnu Bandaríkjamanna í Írak.

Aðeins fáeinum klukkustundum eftir að greint var frá afsögn Rumsfelds boðaði George Bush Bandaríkjaforseti til fundar í Hvíta húsinu í gær þar sem útnefning Bob Gates var kynnt. Bush þakkaði þar Rumsfeld fyrir vel unnin störf og kvaðst binda miklar vonir við að eftirmaður hans myndi koma inn í landvarnaráðuneytið með nýja og ferska sýn.

Gates, sem er 63 ára að aldri, var forstjóri CIA á árunum 1991-1993 en síðustu ár hefur hann starfað sem rektor A&M-háskólans í Texas. Hann er sagður njóta virðingar bæði repúblikana og demókrata og því er reiknað með að staðfesting öldungadeildarinnar á útnefningu hans sé einungis formsatriði.

Gates situr í nefnd á vegum stjórnarinnar sem meta á ástandið í Írak og koma með tillögur um breytingar á stefnunni. Nefndin hefur ekki skilað tillögum sínum en búist er við að þær feli í sér að bandaríska herliðið verði kallað heim frá Írak smátt og smátt og aukinn þrýstingur verði settur á Sýrlendinga og Írana um að blanda sér ekki í íröksk innanríkismál.

Af þessu draga stjórnmálaskýrendur þá ályktun að Gates muni í embætti sínu ekki beita sér fyrir róttækum breytingum á stefnunni heldur eru ráðherraskiptin fyrst og fremst tilraun Bandaríkjastjórnar til að sýna að hún sé að bregðast við úrslitum kosninganna og losa sig við holdgerving þess sem miður hefur farið í Írak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×