Innlent

26 umferðaróhöpp í vikunni

Vikan var róleg í umdæmi lögreglunnar á Álftanesi, í Garðabæ og Hafnarfirði, hvað varðar allt nema umferðaróhöpp. Í vikunni voru 26 umferðaróhöpp tilkynnt til lögreglunnar og telst það óvenju mikið. Í tveimur þeirra kvörtuðu ökumenn um minni háttar eymsli, en öll teljast þau slysalaus.

Á miðvikudag gerði lögreglan leit í húsi í Hafnarfirði og í húsi í Reykjavík auk þess sem leitað var í bifreið. Lagt var hald á heimatilbúið áfengi, talsvert magn af ótollafgreiddum vindlingum og lítið eitt af meintum fíkniefnum. Málið var unnið í samvinnu við Tollgæsluna og er enn í rannsókn.

Aðfaranótt fimmtudags þurfti á ný að leita til björgunarsveita vegna foks á lausum munum og þakplötum, eins og um liðna helgi.

Í vikunni hefur lögreglan haft afskipti af 24 ökumönnum vegna brota á umferðarlögum, þar af 21 vegna hraðaksturs. Þeir sem hraðast óku voru mældir á 111 km hraða á Álftanesvegi þar sem leyfður er 70 km hámarkshraði, 85 km hraða á Bæjarbraut en þar er leyfður 50 km hámarkshraði og á 93 km hraða á Hafnarfjarðarvegi á Hraunsholtshæð en þar er leyfður hámarkshraði 60 km.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×