Innlent

Rauði kross Íslands fagnar ákvörðun ríkisstjórnarinnar um íslenskukennslu fyrir útlendinga

Rauði kross Íslands sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem hann fagnaði ákvörðun ríkisstjórnarinnar um íslenskukennslu fyrir útlendinga.
Rauði kross Íslands sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem hann fagnaði ákvörðun ríkisstjórnarinnar um íslenskukennslu fyrir útlendinga. MYND/Netið

Rauði kross Íslands fagnar ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að verja 100 milljónum króna á næsta ári til sérstaks verkefnis um íslenskukennslu fyrir útlendinga. Félagið telur þessa ákvörðun mikilvægt skref í að gera innflytjendum kleift að nýta hæfileika sína og menntun til að verða fullgildir og sjálfstæðir þáttakendur á öllum sviðum samfélagsins.

Í könnun félagsins "Hvar þrengir að" um stöðu þeirra sem verst standa hér á landi, sem kynnt var í maí á þessu ári, kom meðal annars fram að innflytjendur úr röðum láglaunafólks og börn þeirra stæðu einna verst í þjóðfélaginu og þeir sem ekki tali íslensku væru enn verr settir.

Á málefnaþingi sem Rauði krossinn hélt um niðurstöður áðurnefndar könnunar fór fram víðtæk umræða um raunhæfar leiðir til að til að leysa þá hópa sem verst standa í samfélaginu úr vítahring fátæktar, einsemdar og fordóma. Þar kom fram að aðgengileg kennsla í íslensku væri lykilatriði í að árangur næðist og til þess þyrfti sameiginlegt átak stjórnvalda, atvinnulífs, félagasamtaka og almennings.

Það er von Rauða kross Íslands að stóraukin áhersla á markvissa íslenskukennslu verði til að bæta lífsgæði innflytjenda og auðvelda gagnkvæma aðlögun að íslensku samfélagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×