Innlent

Halldór hættir sem framkvæmdastjóri VISA

Halldór Guðbjarnason hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri VISA Ísland og hefur Höskuldur H. Ólafsson verið ráðinn í staðinn. Halldór segir starfslok sín í fullri sátt við fyrirtækið.

Halldór Guðbjarnason hefur stýrt VISA Íslandi í sjö ár. Halldór, sem nýlega varð sextugur, kvaðst í samtali við NFS hætta mjög sáttur við starfsfólk og fyrirtækið og vera mjög ánægður með stöðu þess, enda hefði rekstur þess aldrei gengið eins vel og nú. Starfslok hans komu hins vegar flatt upp á starfsmenn fyrirtækisins þegar tilkynnt var um þau í gær enda var talið að vilji Halldórs hefði staðið til þess að stýra fyrirtækinu í gegnum breytingaferli, sem er áformað.

Heimildarmönnum fréttastofu ber þó ekki saman um hvað þarna hafi gerst. Annars vegar er fullyrt að eining sé milli eigenda, KB-banka, Landsbankans og sparisjóðanna, um framkvæmdastjóraskiptin. Hins vegar eru heimildarmenn sem segja þau vísbendingu um valdatafl milli stóru bankanna og tengja þau við eignabreytingar sem urðu síðastliðið sumar þegar KB banki eignaðist hlut Glitnis. KB-banki hafi myndað blokk með sparisjóðunum innan stjórnar VISA Íslands og Landsbankinn lent í minnihluta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×