Erlendur karlmaður á þrítugsaldri lést í umferðarslysi á Reykjanesbraut skammt frá nýrri verslun IKEA í Garðabæ um klukkan hálfellefu í gærkvöld. Bíl var ekið í átt að Garðabæ og skall hann á steypuklump sem komið hafði verið fyrir á veginum til þess að stýra umferð um hann en framkvæmdir standa þar yfir. Maðurinn, sem var farþegi í bílnum, var látinn þegar lögregla og sjúkralið kom á vettvang. Tveir aðrir erlendir karlmenn voru í bílnum en þeir munu ekki hafa slasast alvarlega. Lögregla lokaði veginum í kjölfar slyssins og myndaðist nokkur umferðarteppa af þeim sökum. Ekki verður greint frá nafni hins látna að svo stöddu en þetta er tuttugasta og þriðja banaslysið í umferðinni á árinu en þau voru nítján allt síðasta ár.
Banaslys á Reykjanesbraut í gærkvöld
