Erlent

Segjast munu bregðast af hörku við árásum Ísraela

Íranar munu bregðast við að hörku ráðist Ísraelar á kjarnorkuvinnslustöðvar landsins. Þeir ætla að halda áfram auðgun úrans þrátt fyrir andstöðu Vesturveldanna og Ísraela.

Þetta kom fram í máli Mohammad Ali Hosseini, formælanda íranska utanríkisráðuneytisins, í morgun. Ummælin eru viðbrögð Írana við þeim vangaveltum ísraelskra embættismanna að rétt gæti verið gera árásir á kjarnorkuvinnslustöðvar Írana til að koma í veg fyrir að þeir komi sér um atómsprengjum.

Ísraelar eru ekki ókunnir slíkum árásum því árið 1981 eyddu þeir Osirak-kjarnakljúfnum í Írak vegna ótta um að Saddam Hussein þróaði þar kjarnavopn. Hosseini sagði að ef gripið yrði til svipaðra bragða nú myndi íranski byltingaherinn svara fyrir sig skjótt og örugglega og af mikilli hörku.

Spurður hvort Íranar ætluðu að halda áformum sínum um auðgun úrans til streitu sagði Hosseini það yrði reynt en í samvinnu við Alþjóðakjarnorkumálastofnunina enda væri vinnslan í friðsamlegum tilgangi.

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, kom til Bandaríkjanna gærkvöld. Í heimsókn sinni hyggst hann ræða við George Bush, forseta landsins, um stefnu Bandaríkjanna í Miðausturlöndum í ljósi úrslita þingkosninganna. Kjarnorkudeilan við Íran verður án efa þar til umræðu en í samtölum við blaðamenn í gær sagði Olmert að Ísraelsstjórn hefði nú ýmsa kosti til skoðunar sem ekki væri tímabært að ræða nánar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×