Erlent

Neyðarfundur hjá Arababandalaginu vegna aðgerða Ísraela

Fundi Arababandalagsins í Kaíró í dag.
Fundi Arababandalagsins í Kaíró í dag. MYND/AP

Utanríkisráðherrar aðildarríkja Arababandalagsins komu saman til neyðarfundar í Kaíró í dag til þess að ræða hernaðaraðgerðir Ísraela á Gasaströndinni undanfarna daga.

Fram kemur á fréttavef BBC að líklega verði rætt um hvort taka eigi málið upp á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, en Bandaríkjamenn beittu í gær neitunarvaldi sínu í öryggisráði samtakanna gagnvart ályktun þar sem aðgerðir Ísraela eru fordæmdar.

Fjölmörg ríki hafa gagnrýnt árásir Ísraela, en í einni þeirra létust átján óbreyttir borgarar, þar á meðal konur og börn. Þetta er í annað sinn á árinu sem Bandaríkin beita neitunarvaldi sínu í öryggisráðinu varðandi ályktanir sem snúa að hernaðaraðgerðum Ísraela.

Talsmaður ríkisstjórnar Palestínumanna segir Bandaríkjamenn hafa með neitunarvaldi sínu í gær lagt blessun sína yfir blóðbaðið. Aðalritari Arababandalagsins segir ákvörðun Bandaríkjastjórnar aðeins munu auka reiði manna gagnvart Ísrael.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×