Erlent

Telja að Castro sé með krabbamein

MYND/AP

Bandarísk stjórnvöld telja að Fidel Castro, forseti Kúbu, sé kominn með krabbamein og að hann muni ekki lifa út árið 2007. Frá þessu er greint á fréttavef bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CNN. Eins og kunnugt er fól Castro bróður sínum, Raul, að halda um stjórnartaumana fyrr á árinu eftir að hann veiktist.

Fregnir bárust af því á dögunum að Castro væri óðum að braggast en utanríkisráðherra Kúbu dró í síðustu viku til baka þá spá sína að Castro myndi snú aftur að valdastólum í desember. Heimildarmenn CNN innan bandaríska stjórnkerfisins segja ekki hafa verið greint frá því hvað hrjái Castro nákvæmlega en að þau telji að leiðtoginn aldni sé með krabbamein í maga, ristli og brisi. Segja þau að með efnameðferð geti hann lifað í eitt og hálft ár en ef hann njóti hennar ekki styttist lífslíkur hans töluvert.

Bandarísk stjórnvöld tjá sig ekki opinberlega um það hvernig þau fylgist með heilsu Castros, en CNN segir leyniþjónustustofnanir meðal annars meta myndir, myndbönd og ýmsar aðrar upplýsingar sem kúbversk stjórnvöld sendi frá sér.

Castro varð áttræður í ágúst síðastliðnum en hátíðahöldum á Kúbu var frestað vegna veikinda hans fram í desember og menn bíða nú spenntir að sjá hvort af hátíðahöldunum verði í næsta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×