Erlent

Vilja segja sig úr lögum við Georgíu

Suður-Ossetíumenn greiddu í dag atkvæði um hvort þeir segðu sig endanlega úr lögum við Georgíu. Atkvæðagreiðslan nýtur ekki viðurkenningar á Vesturlöndum en Rússar segja að virða beri niðurstöðuna.

Þótt Suður-Ossetía sé hluti af Georgíu telur þorri íbúa héraðsins sig eiga fátt sameiginlegt með öðrum íbúum landsins, þeir tala ekki einu sinni sama tungumál. Samskiptin við Rússland eru hins vegar mikil, sérstaklega frændurna í Norður-Ossetíu, til dæmis er rúblan gjaldmiðill héraðsins.

Fjórtán ár eru liðin frá því að Suður-Ossetía lýsti yfir sjálfstæði en það nýtur engrar viðurkenningar á alþjóðavettvangi. Atkvæðagreiðslan í dag er hugsuð sem staðfesting á þeirri sjálfstæðisyfirlýsingu og er fastlega búist við að hún verði samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta. Stjórnvöld í Georgíu leggjast gegn þessum þreifingum enda óttast þau um hag minnihlutans í héraðinu sem hélt sína eigin atkvæðagreiðslu í dag. Þar sem georgíska ríkisstjórnin nýtur stuðnings á Vesturlöndum er útilokað að sjálfstæði Suður-Ossetíu verði viðurkennt þar.

Rússar, sem hafa ekki átt beinlínis í vingjarnlegum samskiptum við Georgíumenn að undanförnu, segja aftur á móti að fyrst Vesturlönd beiti sér fyrir sjálfstæði Kosovo frá Serbíu sé þeim ekki stætt á að leggjast gegn sjálfstæðisbaráttu héraða í fyrrum Sovétlýðveldum. Í ljósi framgöngu þeirra sjálfra í Tsjetsjeníu kann þessi röksemd hins vegar að hljóma einkennilega í eyrum margra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×