Erlent

Árásir andófsmanna hafa fjórfaldast á árinu í Afganistan

Kanadískir hermenn í Afganistan minnast fallinna félaga.
Kanadískir hermenn í Afganistan minnast fallinna félaga. MYND/AP

3700 manns hafa fallið í átökum í Afganistan og árásir andófs- og hryðjuverkamanna hafa fjórfaldast það sem af er ári samkvæmt nýrrri skýrslu eftirlitsnefndar sem fulltrúar afganskra stjórnvalda, erlendra stuðningsríkja og Sameinuðu þjóðanna eiga sæti í. Fimm ár eru nú frá því að ráðist var inn í Afganistan og stjórn talibana komið frá völdum en tölurnar sýna að stjórnvöld í landinu eiga mikið verk fyrir höndum.

Í skýrslunni er farið yfir ástandið í landinu og þar segir að fjórum sinnum fleiri hafi fallið í ár en í fyrra, alls um 3700 manns. Stærstur hluti hinna föllnu eru andófsmenn en talið er að um þúsund óbreyttir borgarar séu í hópi hinna föllnu.

Segir enn fremur í skýrslunni að öryggi í landinu hafi versnað á árinu og grafið undan uppbyggingu í Afganistan. Meðal annars hafi þurft að loka skólum í suðurhluta landsins þar sem uppreisnarmenn hafa sig mest í frammi. Þá er bent á að spilling og vaxandi vantrú almennings á stjórnvöldum bitni á baráttunni við uppreisnarmenn.

Sendinefnd á vegum öryggisráðs Sameinuð þjóðanna er nú á ferð um landið að meta ástandið, fimm árum eftir innrás bandamanna. Fram kom í máli yfirmanns nefndarinnar að erfiðasta verkefnið nú væri baráttan við uppreisnaröflin ásamt ópíumframleiðslunni i landinu. Hann sagði þó að alþjóðasamfélagið myndi áfram styðja afgönsku þjóðina á vegferð sinni til friðar og uppbyggingar.

Undanfarna daga hafa verið hörð átök milli hermanna NATO og afganskra sveita annars vegar og andófsmanna hins vegar við landamærin að Pakistan og segja afgönsk yfirvöld að um 60 talibanar fallið í þeim átökum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×