Erlent

Tilbúnir að ræða Írana og Sýrlendinga

Bandaríksir hermenn í Írak.
Bandaríksir hermenn í Írak. MYND/AP

Stjórnvöld í Washington segja koma til greina að hefja á ný viðræður við Írana og Sýrlendinga um framtíð Íraks. Búist er við að ráðgjafahópur bandaríska þingsins leggi til að þau brjóti odd af oflæti sínu og leiti til þessarra tveggja ríkja sem hafi töluverð áhrif á gang mála í Írak.

Það er James Baker, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem fer fyrir ráðgjafahópnum sem skilar niðurstöðum sínum í lok árs. Bush Bandaríkjaforseti fundar með Baker og öðrum úr hópnum síðar í dag. Talsmaður forsetans segir hann meta alla möguleika í stöðunni.

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, mun ávarpa fund ráðgjafarhópsins á morgun í gegnum myndsíma en í kvöld mun hann ávarpa viðskiptaþing í Bretlandi. Þar er búist við að hann hvetji stjórnvöld í Damascus og Teheran til þátttöku í viðræðum um framtíð Íraks. Imad Moustapha, sendiherra Sýrlendinga í Bandaríkjunum, segir stjórnvöld í Sýrlandi vilja ræða málin en fyrst verið Bandaríkjamenn að viðurkenna að stefna þeirra í Írak hafi beðið skipbrot.

Íraksstríðið er talin helsta ástæðan fyrir fylgishruni Repúblíkana á Bandaríkjaþingi í kosningunum fyrir tæpri viku. Háttsettir demókratar vilja kall bandarískt herlið frá Írak í áföngum. Carl Levin, verðandi formaður varnarmálanefndar öldungadeildar segir nauðsynlegt að gera Írökum það ljóst að Bandaríkjamenn ætli ekki legur að binda sig þar um óákveðinn tíma. Hann vill að brottflutningur hefjist á næstu mánuðum og segir öldungadeildarmenn úr röðum repúblíkana tilbúna til að styðja þá ákvörðun.

75 lík fundust í írösku borgunum Bakúba og í Bagdad í gær. Bílsprengja sprakk nærri varnarmálaráðuneytinu í morgun, einn særðist og þrettán bílar eyðilögðust. Ráðuneytið er á græna öryggissvæðinu, sem er undir stjórn Bandaríkjamanna, og stendur á móti íranska sendiráðuneytinu. Fjórir breskir hermenn féllu og þrír særðust í árás á eftirlitsbát í Basra í Suður-Írak í gær. 125 breskir hermenn hafa fallið Írak frá upphafi átaka þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×