Innlent

Ríkisstjórnin eflir íslenska kvikmyndagerð

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra undirrituðu í dag ásamt fulltrúum samtaka kvikmyndagerðarmanna samkomulag til næstu fjögurra ára um eflingu íslenskrar kvikmyndagerðar.

Í samkomulaginu segir að stefnt skuli að því að árlega verði gerðar eigi færri en fjórar leiknar íslenskar kvikmyndir í fullri lengd og að stefnt skuli að því að hlutfall framleiðslustyrks úr Kvikmyndasjóði af kostnaðaráætlun sé 50% en það er nú 40%. Á nú að leggja sérstaka áherslu á barna- og fjölskyldumyndir. Stuðningi við stuttmynda- og heimildamyndagerð verður og áframhaldið.

Samkomulagið felur í sér að stuðningur við kvikmyndagerð á Íslandi eykst úr 372 milljónum á yfirstandandi ári í 700 milljónir árið 2010.

Kvikmyndaráð sendi rétt í þessu frá sér ályktun þar sem hún fagnar þessu mikilvæga skrefi sem stigið hefur verið til að tryggja fjármagn til greinarinnar og gera henni kleyft að styrkja innviði hennar og stuðla að áframhaldandi þróun innlendrar kvikmyndagerðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×