Innlent

Kannað hvort kortaupplýsingar hafi verið nýttar

Lögregla rannsakar nú í samvinnu við kortafyrirtæki, hvort mennirnir tveir, sem voru handteknir í Reykjavík á laugardag fyrir að setja upp afritunarbúnað á hraðbanka, hafi nýtt sér upplýsingarnar, eða jafnvel komið þeim úr landi.

Fyrir helgi kom í ljós að fölsk framhlið hafið verið límd framan á hraðbanka í Reykjavík, önnur fannst svo í Kópavogi á laugardag og sú þriðja í Reykjavík í fyrradag. Í þessum fölsku framhliðum er afritunarbúnaður sem skráir allar upplýsingar um kort, sem notuð eru í viðkomandi hraðbanka og misnota falsararnir svo þær upplýsingar til að ná fé út af viðkomandi reikningum.

Fjórða viðlíka málið kom upp á kortalesara á bensínsjálfsala í Hafnarfirði í september og í janúar gerði lögregla upptækar fjórar falskar framhliðar af Búlgörskum farþega, sem var að koma til landsins. Málið á bensín sjálfsalanum í Hafnarfirði er óupplýst, en á laugardag handtók lögreglan tvo útlendinga, sem hafa játað á sig þrjár nýjustu falsanirnar. Þeir sitja nú í gæsluvarðhaldi. Lögregla vill ekki gefa upp hvort mennirnir eigi vitorðsmenn hér á landi og verst frekari fregna á þessu stigi, en í kjölfar málsins er búið að skoða alla hraðbanka á landinu og yfirfara sjálfvirkar myndavélar, sem eiga að mynda hvern einasta viðskiptavin. Það munu einmitt hafa verið þannig upptökur, sem komu lögreglu á spor falsaranna á laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×