Innlent

Dagsbrún sendir frá sér afkomuviðvörun

MYND/Pjetur

Dagsbrún sendi í dag frá sér afkomuviðvörun vegna níu mánaða uppgjörs. Stjórn fyrirtækisins hefur jafnframt ákveðið að ganga til viðræðna við hugsanlega kaupendur á meirihluta hlutafjár í Daybreak Acquisitions, móðurfélagi Wyndeham press Group PLC, sem er þriðja stærsta prent- og samskiptafyrirtæki Bretlands. Dagsbrún er móðirfyrirtæki 365 sem meðal annars rekur NFS.

Dagsbrún sendi Kauphöll Íslands tilkynningu þessa efnis í dag. Þar segir meðal annars: „ Dagsbrún hefur ráðið fyrirtækjaráðgjöf Landsbanka Íslands hf. til aðstoðar við söluna en í ljósi breytinga í starfsumhverfi á breskum prentmarkaði sem skýra má með aukinni samkeppni og mikilli samþjöppun fyrirtækja á þessu sviði, er ljóst að rekstraráætlanir sem gerðar voru við kaupin munu ekki standast hjá Dagsbrún fyrir árið 2006. Telur stjórn fyrirtækisins rétt að gera ráð fyrir 1,5 milljarða króna varúðarfærslu vegna eignarhlutar félagsins í Daybreak Acquisitions Ltd.

Rétt er að benda á að í skiptingaráætlun Dagsbrúnar hf., þann 12. september síðastliðinn, var viðskiptavild að fjárhæð 1 milljarður króna afskrifuð í kjölfar virðisrýrnunarprófs á eign félagsins í Kögun hf. Þá hefur fallið til einskiptiskostnaður vegna skiptingar og endurskipulagningar félagsins. Loks er rekstur 365 miðla ehf. undir áætlunum fyrstu 9 mánuði ársins."

 

Þórdís Sigurðardóttir, stjórnarformaður Dagsbrúnar hf. segir þó útlitið fyrir rekstur fjarskipta- og fjölmiðlahluta Dagsbrúnar í framtíðinni vera gott. Sala á hlut félagsins í Wyndeham myndi létta mikið á skuldsetningu samstæðunnar og skerpa áherslur í rekstrinum. Þá sé stefnt að því að selja allan hlut félagsins í Wyndeham á næstu 24 mánuðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×