Innlent

Lögbrot að ráða tengdason biskups

Skipan tengdasonar biskups, í embætti sendiráðsprests í Lundúnum, braut gegn jafnréttislögum, samkvæmt dómi Hæstaréttar í dag. Siv Konráðsdóttir, lögmaður konunnar sem stefndi segir þetta áfellisdóm yfir biskupi því hann beri samkvæmt dómnum ábyrgð á lögbrotinu. Gestur Jónsson, lögmaður biskups telur þessa niðurstöðu engan vegin áfellisdóm yfir embættisverkum biskups og raunar þvert á móti.

Karl Sigurbjörnsson, biskup fól hæfisnefnd að meta umsækjendur um stöðuna í Lundúnum og skipa í stöðuna. Fór svo að nefndin valdi Sigurð Arnarsson, tengdason biskups. Sigríður Guðmarsdóttir, sem einnig sótti um stöðuna taldi að sér vegið og höfðaði mál.

Héraðsdómur taldi að biskup hefði ekki mátt fela hæfisnefndinni þetta skipunarhlutverk. Því væri Biskupsstofa skaðabótaskyld. Hæsitéttur staðfestir dóminn en á allt öðrum forsendum. Gestur Jónsson, lögmaður biskups bendir á að Hæstiréttur hafi talið það lögmætt að fela hæfisnefndini þetta hlutverk. Aftur á móti hafi Hæstiréttur metið umsækjendurnar að nýju og talið að Sigríður væri að minnsta kosti jafnhæf og því hafi átt að velja hana með tilvísan til jafnréttislaga. Þetta sé því ekki áfellisdómur yfir biskup.

Siv Konráðsdóttir, lögmaður Sigríðar telur aftur á móti að Hæstiréttur staðfesti að biskup beri fulla ábyrgð á gjörðum hæfisnefndarinnar. Telur hún það markverðast við dóminn að Hæstiréttur telji ólögmætt að klæðskerasauma auglýsingu um embættið að menntun og reynslu tengdasonar biskups. Þá komi skýrt fram að Hæstiréttur telji að Sigríður hafi verið hæfari til starfans en Sigurður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×