Erlent

Æfingaflugtak gekk vel

Geimfararnir ganga frá borði eftir vel heppnaða æfingu.
Geimfararnir ganga frá borði eftir vel heppnaða æfingu. MYND/AP

Væntanlegir geimfarar fóru um borð í geimskutluna Discovery í dag til þess að undirbúa sig fyrir geimskotið sem verður í næsta mánuði. Æfingin gekk eins og í sögu og var henni haldið áfram þangað til aðeins fjórar sekúndur voru í flugtak.

Áhöfnin hefur verið í geimmiðstöðinni á Kennedy-höfða síðan á mánudaginn til þess að taka þátt í ýmiss konar prófunum og verkefnum. Alls verða sjö manns í áhöfninni og þar af fimm nýliðar. Þar á meðal er sænski geimfarinn Christer Fuglesang, sem ætlar einmitt að fara með sænskan jólamat í alþjóðlegu geimstöðina til þess að gefa þeim sem eru þar fyrir.

Þetta verður fyrsta geimskot bandarísku geimferðastofnunarinnar (NASA) um nótt síðan Columbia slysið varð árið 2003. Þá féll hluti af klæðningu á flaugina og skemmdi hana svo mikið að hún sprakk á leið sinni til jarðar og létust þá allir sjö meðlimir hennar.

Ástæðan fyrir því að flugtak verður um nótt er sú að NASA þarf að klára að byggja hina alþjóðlegu geimstöð áður en hún leggur geimskutluflota sínum eftir fjögur ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×