Innlent

Fötluð börn fá lengda viðveru

Eftir áramót eiga öll fötluð börn á aldrinum tíu til sextán ára kost á lengdri viðveru í grunnskólum eftir að kennslu lýkur. Félagsmálaráðherra kynnti samkomulag um skiptingu kostnaðar milli ríkis og sveitarfélaga á ríkisstjórnarfundi í morgun, en deilur um kostnaðarskiptinguna hafa komið í veg fyrir að fatlaðir njóti þessarar þjónustu.

Lengd viðvera heitir sá tími sem börn eru í skóla eftir að hefðbundinni kennslu lýkur og fram til klukkan fimm á daginn. Á þeim tíma geta þau meðal annars fengið aðstoð við heimanám. Óskýrt er í lögum hver ber kostnaðinn af lengdri viðveru fatlaðra barna og ríki og sveitarfélög hafa deilt um það hver eigi að borga. Því hefur ráðuneytið verið í viðræðum við Samband sveitarfélaga um hvernig megi leysa kostnaðinn. Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra fékk heimild á ríkisstjórnarfundi í morgun til að ganga frá samkomulagi um þessi mál við sveitarfélögin.

Áætlað er að um tvöhundruð og fjörutíu fötluð börn séu í fimmta til tíunda bekk en óvíst er hversu mörg eiga eftir að nýta sér það að fá að vera lengur í skólanum. Í samkomulaginu er gert ráð fyrir að kostnaðurinn falli jafnt á milli ríkis og sveitarfélaga en áætlaður kostnaður er um 120 milljónir króna á ári. Samkomulagið tekur gildi um áramótin og verður væntanlega til tveggja ára.

Duration:0'07"]

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×