Sport

Federer fór létt með Blake

Það fór vel á með þeim Federer og Blake eftir úrslitin sem lauk nú í hádeginu.
Það fór vel á með þeim Federer og Blake eftir úrslitin sem lauk nú í hádeginu. Getty Images

Roger Federer frá Sviss bætti enn einum titlinum í safn sitt nú í hádeginu þegar hann sigraði Bandaríkjamanninn James Blake í úrslitum Meistaramótsins í Shanghai. Federer hafði mikla yfirburði og sigraði í þremur lotum, 6-0, 6-3 og 6-4.

Þetta var tólfti titill Federer á tímabilinu og hans 16 úrslitaleikur en alls hefur hann tekið þátt í 17 mótum á tímabilinu. Hann hefur því aðeins einu sinni mistekist að komast í úrslit þeirra móta sem hann hefur tekið þátt í á tímabilinu. Federer er af mörgum talinn besti tennisspilari sem uppi hefur verið.

"Þetta er hinn fullkomni endir á ótrúlegu tímabili," sagði Federer eftir að sigurinn var í höfn en sigurlaunin voru rúmlega 100 milljónir króna. "Ég held að ég hefði ekki getað náð betri árangri í ár," bætti hann við.

Federer hefur verið á toppi heimslistans frá því í febrúar 2004, í alls 143 vikur. Honum vantar aðeins nokkrar vikur í að ná meti Jimmy Connors, sem á sínum tíma sat í 160 vikur í röð í toppsætinu. Nánast öruggt er að Federer slær það met.

"Ef ég næ því yrði það einn mesti sigur minn á ferlinum. Ég bíð eftir deginum sem ég næ meti Connor en ég bíð rólegur þangað til," sagði Federer.

Blake hafði varla lýsingarorð eftir úrslitaviðureignina til að segja frá yfirburðum Federer. "Hann er of góður, hinn fullkomni spilari. Það er líka ótrúlegt hvað hann spilar vel í úrslitaleikjum. Ég átti aldrei möguleika," sagði Blake auðmjúkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×