Erlent

Alræmdur glæpamaður sleppur úr fangelsi í S-Afríku

Lögregla í Suður-Afríku leitar nú að einum af alræmdustu glæpamönnum landsins sem slapp úr öryggisfangelsi í Pretoríu á laugardagskvöld. Maðurinn, Ananias Mathe sem er frá Mósambík, var handtekinn fyrir rúmu ári og hefur verið ákærður fyrir yfir 50 brot, þar á meðal morð, nauðgun, vopnað rán og mannrán.

Mathe mun hafa losað sig úr handjárnum, smurt sig í vaselíni og þröngvað sér út um pínulítinn glugga í fangelsinu. Þetta er í fyrsta sinn í 36 ára sögu öryggisfangelsisins sem einhverjum tekst að brjótast út úr því.

Lögregla hefur engar skýringar á því hvernig Mathe tókst ætlunarverk sitt en fangelsismálayfirvöld í Suður-Afríku hafa fyrirskipað rannsókn á málinu. Þá eru landamæraverðir sérstaklega á varðbergi þar sem hugsanlegt er að Mathe reyni að komast aftur til Mósabík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×