Erlent

Tveir forsetar í Mexíkó

Calderon er vinstra megin á myndinni en Obrador hægra megin.
Calderon er vinstra megin á myndinni en Obrador hægra megin. MYND/AP

Hinn vinstri sinnaði forsetaframbjóðandi í Mexíkó, Andres Manuel Obrador, ætlar í dag að láta sverja sig í embætti forseta Mexíkó. Það er ekki í frásögur færandi nema að hann tapaði í forsetakosningunum sem fram fóru í júlí síðastliðnum.

Búist er við því að tugir þúsunda stuðningsmanna Obrador eigi eftir að sækja athöfnina en hún mun fara fram á einu stærsta torgi í Mexíkóborg. Obrador hefur þegar tilnefnt ríkisstjórn og talið er að hann muni biðja fólk að mótmæla væntanlegri stjórn Felipe Calderon en hann vann í forsetakosningunum í júlí með minna en einu prósentustigi. Lögregla hefur þegar tekið sér stöðu í miðborg Mexíkóborgar.

Kosningarnar leiddu í ljós stéttaskiptingu í Mexíkó en Obrador bauð sig fram með því loforði að berjast gegn fátækt og draga úr efnahagsendurbótum undanfarinna hægri stjórna landsins.

Hæstiréttur landsins hefur þó úrskurðað Calderon sigurvegara og Obrador hefur aðeins stuðning um 19% landsmanna samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×