Erlent

Eggert kominnn á Upton Park

Eggert Magnússon, tilvonandi stjórnarformaður West Ham United, og Björgólfur Guðmundsson sem er aðalmaðurinn á bak við kaup íslenskra fjárfesta á West Ham.
Eggert Magnússon, tilvonandi stjórnarformaður West Ham United, og Björgólfur Guðmundsson sem er aðalmaðurinn á bak við kaup íslenskra fjárfesta á West Ham. MYND/Ómar V.

Eggert Magnússon kom nú fyrir stundu á Upton Park, heimavöll West Ham United, og skoðaði hann ásamt Alan Pardew, knattspyrnustjóra félagins. Þeir gengu svo út á grasið og fengu báðir trefla með merki og nafni liðsins og leyfðu ljósmyndurum að taka myndir af tímamótunum.

Eftir þetta gekk Eggert svo á fund með stjórnarmönnum í West Ham en boðað hefur verið til blaðamannafundar kl. 11 að íslenskum tíma þar sem kaup íslensku fjárfestanna á félaginu verða kynnt.

Í yfirlýsingu á heimasíðu West Ham segir Eggert að Björgólfur Guðmundsson, stjórnarformaður Landsbankans, leggi til mest af fénu til kaupanna á félaginu, og að hann sýni Eggert fullan stuðning í því að styrkja félagið. Þeir hafi þekkst í gegnum fótboltann í mörg ár og deili ástríðu fyrir íþróttinni, sérstaklega á Englandi.

„Það er mikil spenna innan félagsins varðandi það hvaða árangri við getum náð saman og ég vona að áhangendur liðsins séu sama sinnis. Félagið getur verið stolt yfir svo mörgum hlutum og ég vona að allir þeir sem dá og styðja félagið leggi stolt sitt og ástríðu í að byggja upp West Ham United til framtíðar," segir í tilkynningu Eggerts.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×