Innlent

Aðeins eftirlit með mannaferðum á varnarsvæðinu

Eina eftirlitið sem verið hefur á Varnarsvæðinu fyrrverandi í Keflavík er með mannaferðum en ekki viðhaldi mannvirkja. Hundraða milljóna tjón varð þar vegna vatnsskemmda en engar tryggingar eru fyrir hendi að sögn utanríkisráðherra.

Talið er að tjónið sem varð á að minnsta kosti sextán íbúðablokkum á Keflavíkurflugvelli vegna vatns- og frostskemmda hlaupi á tugum ef ekki hundruðum milljóna króna. Ekki hefur enn verið gengið við samningi við nýstofnað Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar sem þýðir að utanríkisráðuneytið hefur ber ábyrgð á þeim 300 byggingum sem á svæðinu eru.

Aðspurð hvað hafi farið úrskeiðis segir Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra að eftirlit sé á svæðinu en það snúi sérstaklega að mannaferðum. Leiðslur hafi sprungið í frosti undanfarinna vikna þar sem engin hreyfing hafi verið á vatninu eins og sé þegar búið sé í húsunum.

Spurð um tryggingamál tengd þessu segir Valgerður að engar tryggingar nái yfir tjónið. Aðspurð hvort það verði þá greitt úr sameiginlegum sjóðum landsmanna segir Valgerður að á svæðinu séu byggingar sem ekki eigi að standa til framtíðar og í einhverjum tilvikum hafi orðið skemmdir í slíkum húsum. Einhver húsanna sem skemmdust hafi hins vegar átt að nýta og því sé ljóst að um tjón sé að ræða. Hún geti þó ekki tilgreint hversu mikið það sé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×