Innlent

Útstreymi gróðurhúsalofttegunda dregst mikið saman hjá Alcan

MYND/GVA

Útstreymi gróðurhúsaloftegunda frá álveri Alcan í Straumsvík hefur minnkað um sjötu prósent fyrir hvert framleitt tonn af áli frá árinu 1990. Þetta kom fram á fundi hjá Samtökum atvinnulífins um útstreymi frá álverum á Íslandi sem fram fór fyrr í dag.

Fram kemur á heimasíðu samtakanna að þennan árangur megi rekja til öflugrar umhverfisstjórnunar Alcan og hefur einkum tekist að draga úr ústreymi á flúorkolefnum.

Samkvæmt skilyrðum íslenskra stjórnvalda frá árinu 2002 má útstreymi flúorkolefna ekki vera meira en 140 kg á hvert framleitt tonn af áli á Íslandi og hefur Alcan þegar náð því markmiði og gott betur eftir því sem Guðrún Þóra Magnúsdóttir, leiðtogi umhverfismála hjá Alcan, segir.

„Losun fyrirtækisins er í dag langt undir markmiðum stjórnvalda en algengt er að útstreymi vegna framleiðslunnar sé um 47 kg á tonn og hefur það farið allt niður í 24 kg á tonn sem þykir framúrskarandi árangur. Til að draga enn frekar úr losun gróðurhúsalofttegunda hjá fyrirtækinu er reynt að lágmarka notkun jarðefnaeldsneytis og eru rafmagnsbílar notaðir hjá fyrirtækinu þar sem þess er kostur," segir enn fremur á vef SA.

Fundurinn var hluti af fundaröð Samtaka atvinnulífsins um atvinnulíf og umhverfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×