Innlent

Hver íslendingur fengi arð af virkjunum

Allir lifandi íslendingar yrðu hluthafar í Íslenska auðlindasjóðnum ohf. sem héldi utan um sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar og virkjanir þeirra nái ný hugmynd Víglundar Þorsteinssonar stjórnarformanns BM Vallár fram að ganga. Sjóðurinn myndi auk þess greiða landsmönnum arð. Lagt er til að sjóðurinn nái yfir allar sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar auk Landsvirkjunar, sem myndi breytast í þróunarsjóð eftir lok Þjórsárvirkjana.

Hluthafar verði allir lifandi íslendingar, en eignarrétturinn verði ekki seljanlegur og erfist ekki. Tillagan kemur í framhaldi af skýrslu auðlindanefndar sem kynnt var á fundi Samtaka iðnaðarins. Hugmyndina sækir Víglundur til Alaska þar sem sams konar sjóður stendur undir heilbrigðis og menntakerfi og borgar auk þess arð til íbúa Alaska. Sjóðurinn greiði lögbundinn skatt, en hagnaðinum yrði deilt milli landsmanna og segir Víglundur arðinn í Alaska í ár hafa numið tæplega 80 þúsundum á mann.

Árni Finnsson formaður Nátturuverndarsamtaka Íslands segir að til að sátt eigi að nást, verði ríkisstyrkir að leggjast af og þessi mál að lúta eðlilegum viðskiptaforsendum. Hann vill leggja áherslu á að vernda náttúru Íslands og tekur sem dæmi þjóðgarð á Vatnajökli sem gæti stuðlað að umtalsverðri aukningu á gjaldeyristekjum.

Víglundur leggur hins vegar áherslu á fjölgun íslendinga og nauðsyn þess að anna eftirspurn eftir orku. Framleiðslustarfsemi sé nauðsynleg og við verðum að ákveða hvort við ætlum að staðna eða vaxa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×