Erlent

Þjóðhátíð í skugga morðs

Líbanskir stjórnmálamenn óttast að fleiri víg muni fylgja í kjölfar morðsins á Pierre Gemayel iðnaðarráðherra í gær. Þriggja daga þjóðarsorg hófst í landinu í morgun með því að þúsundir manna fylgdu kistu Gemayel um götur heimaborgar hans.

Þótt í dag sé þjóðhátíðardagur Líbanons væri synd að segja að landsmenn hefðu verið í hátíðarskapi því þriggja daga þjóðarsorg vegna drápsins á Pierre Gemayel, eins af leiðtogum kristinna maroníta, hófst í morgun. Hans var meðal annars minnst í heimaborg sinni þar sem þúsundir borgarbúa fylgdu kistu hans eftir, sveipaðri fána falangista, fylkingarinnar sem afi Gemayels stofnaði á sínum tíma. Rannsókn á morðinu á Gemayel er þegar hafin. Bandamenn hans telja hins vegar augljóst hverjir hafi verið að verki og óttast að svipuð örlög bíði fleiri manna. Walid Jumblatt, leiðtogi drúsa, vandaði Sýrlendingum ekki kveðjurnar í dag og kvaðst óttast að þeir myndu koma fleirum fyrir kattarnef til að grafa enn frekar undir ríkisstjórninni.

Benedikt páfi sextándi fordæmdi tilræðið í morgun og bað líbönsku þjóðina að vera á varðbergi gagnvart myrkum öflum sem reyndu að eyðileggja landið. Í gær samþykkti svo öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fyrir sitt leyti stofnun dómstóls sem rétta á yfir grunuðum morðingjum Rafiks Hariri fyrrverandi forsætisráðherra en rökstuddur grunur er fyrir því að sýrlenska leyniþjónustan hafi staðið fyrir því tilræði. Morðið á Gemayel setur hins vegar strik í reikninginn því líf líf líbönsku stjórnarinnar hangir nú bláþræði eftir að sex ráðherrar, hliðhollir Sýrlendingum sögðu sig úr henni í síðustu viku til að mótmæla stofnun dómstólsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×