Erlent

"Föstudagurinn svarti" að renna upp

Starfsmaður JC Pennys leggur lokahönd á vöruútstillingu. Hætt er þó við því að búðin líti ekki svona vel út við lok "Föstudagsins svarta".
Starfsmaður JC Pennys leggur lokahönd á vöruútstillingu. Hætt er þó við því að búðin líti ekki svona vel út við lok "Föstudagsins svarta". MYND/AP

Bandarískir neytendur búa sig nú undir "Föstudaginn Svarta" en sá dagur, dagurinn eftir að Þakkagjörðarhátíðinni lýkur þar ytra, er upphafsdagur jólaverslunar í Bandaríkjunum. Á þeim degi í fyrra streymdu tvær milljónir bandaríkjamanna í verslunarleiðangur og þá bara í Wal-Mart. Og það aðeins á fyrsta klukkutímanum sem opið var.

Neytendur bíða þá í röðum löngu áður en búðin opnar, munda kreditkortin, búnir að kortleggja búðirnar og búa sig undir átök. Bandarískur sálfræðingur hefur reynt að útskýra þetta með því að líkja deginum við íþróttakeppni. Neytendur litu á þetta sem keppni í því að verða fyrstir að ná ódýrustu vörunni, eða verðlaununum fyrir erfiðið allt, og að ná sem bestum kaupum áður en lokað er.

Einnig hefur verið bent á að þetta sé kannski eina "heilsurækt" margra bandaríkjamanna sem eru of feitir og því sé dagurinn jafnvel til góða. Verslanir hafa þó ýtt undir þessa hefð og opna margar hverjar dyr sínar á miðnætti til þess að hleypa kaupóðum Bandaríkjamönnum að vörum sínum.

Fréttavefurinn MSNBC greindi frá þessu í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×