Erlent

Varar Ástrala við afskiptum af Fiji eyjum

Frank Bainimarama, yfirmaður hersins á Fiji eyjum
Frank Bainimarama, yfirmaður hersins á Fiji eyjum MYND/AP

Yfirmaður hersins á Fiji eyjum hefur varað Ástralíu og Nýja Sjáland við að skipta sér af innanríkismálum á eyjunum, eftir að utanríkisráðherra Ástralíu sagði að þeir hefðu skýrar sannanir fyrir því að herforinginn væri að undirbúa valdarán innan tveggja vikna.

Frank Bainimarama, herforingi, hefur ítrekað hótað að steypa ríkisstjórn landsins, ef hún falli ekki frá lagasetningum sem hann sættir sig ekki við. Það hefur löngum verið róstusamt á þessum Kyrrahafseyjum og þar hafa verið framin fjögur valdarán síðustu tuttugu árin.

Rósturnar á Fiji eru kynþáttatengdar. Íbúarnir eru um 900 þúsund talsins. Af þeim er rétt rúmur helmingur innfæddir, hinir eru flestir frá Indlandi. Indverjarnir eru ráðandi í ferðaiðnaði og sykurframleiðslu, sem eru helstu tekjustofnar þjóðarinnar.

Hinir innfæddu óttast að Indverjarnir verði einnig ráðandi í stjórnmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×