Erlent

Breska lögreglan finnur leifar af geislavirku efni

Mynd sem var tekin af Litvinenko á mánudaginn var.
Mynd sem var tekin af Litvinenko á mánudaginn var. MYND/AP

Bresk yfirvöld hafa fundið leifar af sama geislavirka efninu og fannst í líkama Alexanders Litvinenko eftir að hann lést á þeim þremur stöðum sem hann dvaldi á daginn sem hann taldi að hefði verið eitrað fyrir honum.

Var það í íbúð hans, á sushi veitingastaðnum þar sem hann hitti ítalska öryggisráðgjafann Scaramella til þess að ræða um morðið á rússneskri fréttakonu og síðan á hótelherbergi þar sem hann hitti tvo rússneska fyrrum samstarfsfélaga sína. Þessir staðir hafa allir verið girtir af af lögreglunni í London.

Einnig hafa þeir starfsmenn sjúkrahússins sem hann dvaldist á og önnuðust hann verið sendir í prófanir til þess að athuga hvort að þeir hafi orðið fyrir geislun af einhverju tagi. Efnið sem fannst, pólóníum 210, er efni sem verður aðeins til í kjarnorkuveri og þykir því ljóst að þeir sem hafi staðið á bak við morðið á Litvinenko eigi háttsetta bandamenn einhvers staðar.

Litvinenko sakaði Vladimir Putin Rússlandsforseta um að hafa verið á bak við morðið á sér en Pútin neitar öllum ásökunum og segir fáránlegt að bendla stjórnvöld í Moskvu við morðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×