Innlent

Viðræður við Dani og Kanadamenn um samstarf hefjast á næstu vikum

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra átti í morgun fund með Jonas Gahr Störe, utanríkisráðherra Noregs um samstarf landanna í öryggis- og varnarmálum í tengslum við leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í Ríga í Lettlandi.

Valgerður sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 að hún og Störe hafi fyrst og fremst rætt æfinga- og eftirlitsflug Norðmanna í íslenskri lofthelgi og var ákveðið að norskir embættismenn kæmu til landsins í næsta mánuði til þess að kanna aðstæður á Keflavíkurflugvelli í tenglsum við það. Áður hefur komið fram að viðræður íslenskra og norskra stjórnvalda um samstarf í varnarmálum hefjist í næsta mánuði.

Þá ræddi Valgerður einnig við Geoff Hoon, Evrópumálaráðherra Bretlands, og lýsti hann áhuga á því að koma til Íslands til viðræðna í byrjun næsta árs um hugsanlegt varnarsamstarf.

Valgerður ræddi einnig við Peter Gordon MacKay, utanríkisráðherra Kanada, og Ulrik Federspiel, ráðuneytisstjóra í danska utanríkisráðuneytinu, og var ákveðið að embættismenn ríkjanna hittust á næstu vikum til frekari viðræðna um hugsanlegt samstarf í öryggis- og varnarmálum.

Fram kemur á vef utanríkisráðuneytisins að ráðherra hafi einnig átt tvíhliða fund með Mihai Razvan Ungureanu, utanríkisráðherra Rúmeníu og rætt stækkun Evrópska efnahagssvæðisins.

Í gær heimsótti utanríkisráðherra Latekóbanka í Ríga og verslun 66° Norður, en bæði fyrirækin eru í eigu Íslendinga. Síðdegis heldur utanríkisráðherra til Litháen.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×