Erlent

Íranir styðja uppreisnarmenn í Írak

Liðsmenn Mahdi hers Moktada al-Sadr.
Liðsmenn Mahdi hers Moktada al-Sadr. MYND/AP

Bandarískir embættismenn segja að þeir hafi fundið óhrekjanlegar sannanir fyrir því að Íranir styðji uppreisnarmenn í Írak. Segjast þeir hafa fundið glæný vopn, merkt með ártalinu 2006, á látnum uppreisnarmönnum.

Þetta gefur til kynna að vopnin fari ekki í gegnum svarta markaðinn til uppreisnarmanna heldur fari þau beint úr verksmiðjunni til þeirra og að það getur ekki gerst nema írönsk stjórnvöld viti af því, segja bandarísku embættismennirnir.

Talið er að hersveitir Írana séu þeir sem komi vopnunum áfram en Bandaríkjamenn vilja meina að þeir þjálfi uppreisnarmennina líka og þá sérstaklega her Moktada al-Sadr, Mahdi herinn svokallaða. Bandarískir hernaðarsérfræðingar telja að alls séu um 40.000 hermenn í Mahdi hernum en til samanburðar verða um 66.000 hermenn í íraska hernum þegar hann er tilbúinn. Sem stendur eru aðeins 6.500 íraskir hermenn tilbúnir í bardaga án aðstoðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×