Erlent

Castro hvergi sjáanlegur

Fimm daga hátíðarhöldum vegna áttræðisafmælis Fidels Castro lauk í dag með hersýningu á heimsmælikvarða. Sökum veikinda var afmælisbarnið hins vegar hvergi sjáanlegt og það hefur gefið þeim orðrómi byr undir báða vængi að Castro liggi banaleguna.

Það verður seint sagt um Kúbverja að þeir geti ekki haldið almennilegar hersýningar og sú sem fram fór í dag í höfuðborginni Havana er sjálfsagt ein af þeim glæsilegri. Þar mátti sjá vígbúnað af ýmsu tagi og meira að segja var snekkjunni "Ömmu" brugðið upp á land en á henni sigldu Castro og félagar hans frá Mexíkó til Kúbu fyrir nákvæmlega hálfri öld til að hefja byltinguna fyrir alvöru. Öll þessi viðhöfn dugði hins vegar ekki til að breiða yfir þá staðreynd að sjálfan Fidel Castro var hvergi að sjá. Það var sjálfsagt hvað mest áberandi í ávörpum dagsins því í stað nokkurra klukkustunda langrar þrumuræðu frá leiðtoganum fengu viðstaddir aðeins að heyra kurteisleg heilræði Rauls, yngri bróður hans, til nágrannanna í Bandaríkjunum.

Fidel Castro hefur ekki komið fram opinberlega frá því að hann veiktist í sumar, en hann sást síðast í fjölmiðlum þegar hann tók á móti vini sínum Hugo Chavez, forseta Venesúela, í september. Litlar sem engar skýringar hafa fengist á hvað ami nákvæmlega að honum en bandaríska leyniþjónustan segist hafa áreiðanlegar heimildir fyrir því að hann sé með krabbamein og eigi skammt eftir ólifað. Öllum hátíðarhöldum vegna afmælisins var því frestað þar til nú og var litið á veisluna nú sem mælikvarða á heilsu forsetans, og pólitíska framtíð.

Á meðal þeirra sem mættu til afmælisins voru forsetar Bólivíu og Níkaragva. Hugo Chavez var hins vegar fjarri góðu gamni en forsetakosningar fara fram í Venesúela á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×