Erlent

13 metra há jólageit

Jólageitin þeirra Svía.
Jólageitin þeirra Svía. MYND/AP

Í sænska bænum Gavle er sá siður á að fyrir jólin er reist 13 metra há geit sem gerð er úr hálmi og er hún síðan aðalsmerki bæjarins á meðan jólahátíðinni stendur. Hún hefur hinsvegar aðeins lifað af tíu sinnum af þeim 40 skiptum sem þetta hefur verið gert enda kitlar marga brunavarga í puttana þegar þeir sjá geitina.

Talsmaður bæjaryfirvalda heldur þó að geitin í ár muni sigrast á fjendum sínum þar sem búið er að húða hana með efni sem getur ekki brunnið. Það var reynt einu sinni áður en efnið lak þá af næst þegar það rigndi.

Brennuvargarnir sem kveikja í geitinni hafa sjaldan náðst en árið 2001 þurfti bandarískur ferðamaður að dúsa 18 daga í fangelsi fyrir að brenna jólageitina þeirra í Gavle. Svíar halda mikið upp á geitur og áður en jólasveinninn ameríski fór að koma með pakka til barna var það jólageitin sem það gerði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×