Innlent

Einkaframkvæmd komi til greina ef hún flýti fyrir framkvæmdum

MYND/Teitur

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra sagði á Alþingi í dag að hann teldi koma til greina að fela einkaaðilum að tvöfalda Suðurlandsveg ef það yrði til að flýta framkvæmdum við hann. Þetta kom fram í svari hans til Björgvins G. Sigurðssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, sem spurðist fyrir um stefnu stjórnvalda í málefnum Suðurlandsvegar.

Benti hann á hræðilegt slys á veginum um helgina sem kostað hefði tvö mannslíf og sagði umferð um veginn hafa aukist mikið á undanförnum árum. Enn fremur sagði hann að samkvæmt hugmyndum Vegagerðarinnar yrði Suðurlandsvegur svokallaður 2+1 vegur fram til 2030 sem væri algjörlega óviðunandi.

Tvöfalda þyrfti veginn og algjör samstaða væri um það meðal allra flokka að ráðast í það tafarlaust. Sagði hann stefnu stjórnvalda í málinu óljósa og fór fram á að ráðherra svaraði því hver hún væri.

Sturla Böðvarsson sagðist hafa lýst því áður að stefna sín væri að tvöfalda leiðirnar þrjár frá höfuðborgarsvæðinu, þ.e. til Reykjaness, austur fyrir fjall og norður í land, og unnið væri að undirbúningi þess. Sagðist hann telja að tvöföldun Suðurlandsvegar með einkaframkvæmd kæmi til greina ef það yrði til að flýta framkvæmdunum.

Sagði hann jafnframt að í nýrri samgönguáætlun kæmi fram hvaða leiðir hann teldi að ætti að fara í tengslum við tvöföldun þjóðbrautanna þriggja.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×