Erlent

Verra en borgarastyrjöld í Írak

Fráfarandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir ástandið í Írak mun verra en borgarastyrjöld og telur líf almennra Íraka verra nú en þegar Saddam Hússein réð ríkjum í landinu. Hann segir innrásina í Írak hafa verið mikið áfall fyrir Sameinuðu þjóðirnar.

Kofi Annan lætur af embætti framkvæmdastjóra í lok árs eftir tíu ár í starfi. Hann er ómyrkur í máli í viðtali við BBC þar sem hann hvar spurður hvort borgarastyrjöld geisaði í Írak. Hann vísar til átaka í Líbanon og annars staðar, sem talist hafi borgarastyrjaldir. Annan segir ástandið í Írak mun verra en á þeimstöðum og mkilvægt að alþjóðasamfélagið aðstoði Íraka við endurbyggingu í landinu því hann eigi ekki von á að þeir geti staðið að henni einir og óstuddir.

Ummæli Annans eru enn eitt áfallið fyrir stefnu stjórnar Bush Bandaríkjaforseta í málefnum Íraks. Um liðna helgi greindi bandaríska blaðið New York Times frá því að Donald Rumsfeld, fyrrverandi varnarmálaráðherra, hefði, tveimur dögum fyrir afsögn sína viðurkennt í minnisblaði að framganga hersins í Írak væri hvorki að skila skjótum né góðum árangri og því kominn tími til að gera róttækar breytingar á stefnunni.

Annar bandamaður Bush er á leið úr valdamiklu embætti fast á hæla Rumsfelds. John Bolton, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, afhenti forsetanum afsagnarbréf sitt í dag. Demókratar voru afar ósáttir við skipan Boltons sem tók við starfinu í fyrra þegar þinghlé var og því þurfti öldungadeild Bandaríkjaþings ekki að staðfesta skipan hans í embættið fyrr en í þessum mánuði. Nú er ljóst að það fæst ekki í gegn þar sem demókratar hafa þar meirihluta og því ákvað Bolton að taka pokann sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×