Innlent

Fékk snöru til að hengja sig með í jólagjöf

Karlmaður um fertugt var í dag dæmdur í tveggja mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness fyrir að reyna að aka á fyrrverandi eiginkonu sína. Maðurinn reyndi tvívegis að aka á konuna. Konan var stödd við Smáratorg í síðara skiptið til að afhenda manninum börn þeirra. Hún neitaði að láta hann hafa börnin nema í fjölmenni þar sem hún óttaðist hegðun hans. Konan fékk jólagjöf frá manninum um síðustu jól en í pakkanum var snara til að hengja sig með.

Þegar hún hitti manninn við Smáratorg setti hún börn tvö þeirra í bíl hans og spennti belti dóttur sinnar. Þegar hún gekk frá bílnum ákvað hún að ganga fyrir framan bílinn þar sem henni þótti ljóst að maðurinn myndi bakka bílnum. Þegar hún var komin nokkuð fyrir framan bílinn gaf hins vegar maðurinn í og keyrði yfir steinkant í átt að konunni sem slapp með naumindum. Maðurinn sagði fyrir dómi að hann teldi að engin hætta hefði steðjað að konunni og betur hefði hentað honum að aka yfir kantinn en bakka.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að maðurinn hefði stofnaði lífi og heilsu konunnar í augljósan háska og tilviljun ein ráðið því að hún náði að forða sér frá bifreiðinni. Maðurinn var dæmdur í tveggja mánaða fangelsi en þar sem hann hefur aldrei áður gerst sekur um refsilagabrot var ákveðið að skilorðsbinda refsinguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×