Erlent

Fjórða valdaránið á 19 árum

Herinn á Fídji-eyjum rændi völdum í nótt og hneppti forsætisráðherra landsins í stofufangelsi. Þetta er fjórða valdaránið á eyjunum síðan 1987.

Fyrir valdaránsmönnum fer Frank Bainimarama hershöfðingi sem hefur eldað grátt silfur við Laisenia Qarase forsætisráðherra síðustu mánuði. Hershöfðinginn er ósáttur við ákvörðun forsætisráðherrans að náða þá sem rændu völdum fyrir sex árum. Bainimara hefur tekið sér völd forseta, rekið forsætisráðherrann og hneppt hann í stofufangelsi. Hershöfðinginn segir réttkjörinn forseta taka að fullu við á ný að viku liðinni. Hann muni skipa bráðabirgðastjórn og síðan verði boðað til þingkosninga. Qarase segir Bainimarama brjóta gegn stjórnarskrá með aðgerðum sínum en því er herforinginn ósammála.

Um 900 þúsund manns búa á eyjunum. Ferðamannaiðnaður hefur blómstrað þar síðustu árin og nærri hálf milljón manna heimsótt eyjarnar á ári hverju. Óttast margir að enn eitt valdaránið fæli fólk frá.

Skiptar skoðanir eru meðal eyjaskeggja um aðgerðir hersins. Vegfarendur eru ýmist sáttir við aðgerðir Bainimarama eða þá að þeir segja hann brjóta lög og lýsa yfir stuðningi við forsætisráðherrann.

John Howard, forsætisráðherra Ástralíu, sagði í morgun að hann harmaði atburðina á Fídji-eyjum og útilokaði hernaðaraðgerðir af hálfu Ástrala. Fídji-eyjar eru hluti af Breska samveldinu en svo gæti farið að þeim verði vísað úr því í þriðja sinn á 19 árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×