Erlent

Kabila settur í embætti

Josep Kabila, forseti Austur-Kongó, eða Lýðræðislega lýðveldisins Kongó eins og það heitir á frummálinu.
Josep Kabila, forseti Austur-Kongó, eða Lýðræðislega lýðveldisins Kongó eins og það heitir á frummálinu. MYND/AP

Joseph Kabila, sigurvegari í forsetakosningum í Austur-Kongó, verður settur í embætti í dag. Kabila bar sigur af Jean-Pierre Bemba í einum mikilvægustu kosningum í Afríku undanfarna áratugi. Búist er við fyrirmönnum frá fjölmörgum löndum vegna athafnarinnar en Bemba hefur þó sagt að hann muni ekki vera viðstaddur.

Margir hafa kallað kosningarnar kraftaverk þar sem kosningarnar í ár voru þær fyrstu síðan 1960. Þeim var ætlað að binda endi á nærri fimm ára stríð og borgarastyrjöld sem geisaði á árunum 1998 til loka árs 2002 en talið er að allt að fjórar milljónir manna hafi látið lífið í henni. Átta herir tóku þátt í henni auk fjölmargra uppreisnarhópa og hafa átökin oft verið nefnd heimsstyrjöld Afríku.

Eitthvað var um kosningasvik en alþjóðlegir eftirlitsmenn töldu þau ekki hafa haft áhrif á lokaniðurstöðu kosninganna þar sem báðir aðilar hefðu svindlað. í Austur-Kongó eru um 17.000 friðargæsluliðar og er það stærsta friðargæslulið í heimi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×